Örsmá er býflugan meðal fleygra vera en afurð hennar er sætari öllu lostæti.
Hreyk þér ekki upp þótt þú berir glæst klæði og ofmetnast ekki þótt þú njótir sæmdar.

Því að Drottinn gerir dásemdarverk og það sem hann aðhefst er mönnum hulið. Margur harðstjórinn hefur úr hásæti fallið og sá hlaut kórónu sem síst varði.

Margur valdhafinn þoldi mestu smán og rómaðir menn lentu á valdi annarra. (Síraksbók 11:3-6)

Biblían er bók bókanna, það er engin spurning. Ég tala oft um hana sem Orginalinn. Ástæðan er sú að ég hef markvisst sótt mikið að uppbyggilegum námskeiðum í m.a. stjórnun, sjálfstyrkingu og hópefli reglulega frá því ég fór á vinnumarkaðinn innan við tvítugt. Það leið varla það ár sem ég fann ekki eitthvað námskeið til að sækja. Ótal margt lærði ég sem gerði mig betri í vinnu og bætti mitt persónulega líf. Fyrir um tíu árum fór ég svo á Alfa námskeið sem breytti öllu mínu lífi. Á námskeiðinu kynntist ég lifandi trú, sem fram að því hafði fallið undir falleg ævintýr í mínum huga. Samhliða fór ég að lesa Biblíuna og uppgötvaði ég hið ótrúlega. Í Biblíunni, bók bókanna fann ég nánast, ef ekki, allt sem ég var búin að læra á hinum námskeiðunum og hafði skipt máli. Ég tel mig því vera komna með frumritið, Orginalinn. Ég þarf því bara eina bók í dag, les oft í henni og finnst hún ennþá einstök, eftir þessi tíu ár. Hér koma vers úr I Korintubréfi 13 kafla sem ég les oft vegna þess að þau minna mig á að vera alltaf góð við fólk:

Þótt ég talaði tungum manna og engla en hefði ekki kærleika væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum og þótt ég framseldi líkama minn til þess að verða brenndur en hefði ekki kærleika,væri ég engu bættari.

Hið íslenska biblíufélag er 200 ára í ár. Ég óska félaginu til hamingju með 200 árin. Megi Guð blessa áframhaldandi starf félagsins.

Fríður Birna Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri ABC barnahjálpar